Skuldafangelsi verðtryggingarinnar

Á Íslandi er ósýnilegt fangelsi, þetta fangelsi er í peningamálum fólks. Sérstaklega fólks sem reynir að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þetta fangelsi lýsir sér á þann hátt að fólk getur ekki borgað niður lánin sín. Upphaf þessa fangelsis má rekja til skyndilausna á 8 og 9 áratug síðustu aldar. Á þessum tíma var verðtryggðu launa og skuldakerfi komið á í upphafi. Síðan gerðist það að verðtrygging launa var felld út og verðtryggingu skulda var haldið eftir. Við þann gjörning var skapað ósamræmi í launum fólks og skuldum hinsvegar.

Þessi aðgerð hafði einnig þau áhrif að fólk getur ekki borgað lánin sín upp, vegna þess að þau hækka stöðugt. Bæði höfuðstóllinn og mánaðarleg greiðsla. Gallin er að það er ekki hægt að afnema þetta kerfi eins og staðan er í dag, þar sem að sagan kennir okkur að Íslenskt efnahagslíf er of óstöðugt til þess að getað viðhaldið óverðtryggðu lánakerfi hérna á landi. Hvað er þá til ráða gætu margir verið að velta fyrir sér.

Hagstæðasta lausnin á þessu vandamáli Íslendinga er innganga í ESB og gera hagkerfi Íslands hluta af stærri heild, þá efnahagskerfi þeirra 27 aðildarríkja ESB. Íslendingar eiga þá að leggja sérstaka áherslu að taka upp evruna sem fyrst eftir inngöngu í ESB. Lágmarkstími fyrir upptöku evru, eftir að ríki hefur gengið í ESB er tvö ár.

Ef Íslendingar vilja einhverntímann losna úr þessu skuldafangelsi, þá er eina ráðið að gera efnahagskerfi Íslendinga að stærri heild. Skynsamasta leiðin til þess er að sækja um aðild að ESB og ganga í sambandið eins fljótt og hægt er.