Hlutleysis skal gætt í skólastarfi

Stjórn Ungra vinstri – grænna hefur sennt frá sér eftirfarandi ályktun:

Reykjavík, 1. nóvember 2006

Hlutleysis skal gætt í skólastarfi

Stjórn Ungra vinstri – grænna tekur undir málflutning Reynis Harðarsonar og annarra sem mótmælt hafa óviðeigandi starfsemi Þjóðkirkjunnar innan ýmissa grunnskóla landsins. Er hér átt við hina svokölluðu „Vinaleið”, sem að sögn er kristileg sálgæsla sem fram fer í opinberum skólum. Ung vinstri – græn krefjast þess að gætt sé hlutleysis í öllu starfi grunnskóla landsins. Ung vinstri-græn lýsa sig því algjörlega mótfallin trúboði í skólum. Að mati stjórnar Ungra vinstri- grænna er hin svokallaða „Vinaleið” ekkert annað en trúboð þó reynt sé að breiða yfir það með því að tala um sálgæslu. Ekkert trúfélag á erindi með trúboð í grunnskóla landsins. Starfsemi hinnar svokölluðu „Vinaleiðar” er þar að auki innt af höndum djáknum sem eru fulltrúar þjóðkirkjunnar og kristilegar trúar. Sálfræðingar og félagsráðgjafar eru mun betur í stakk búnir til að sinna sálgæslu í grunnskólum enda hafa þeir sérfræðimenntun á þessu sviði. Það er ólíðandi að grunngildi eins og jafnrétti og hlutleysi í
skólastarfi skuli látin víkja til hliðar vegna offramleiðslu á guðfræðingum sem vantar atvinnu.

Ung vinstri – græn vilja einnig íteka þá skoðun sína að kristinfræðikennsla í grunnskólum er einhliða trúarbragðafræðsla og því tímaskekkja í nútímasamfélagi þar sem jafnrétti á að ríkja á öllum sviðum. Í stað kristinfræðikennslu ættu skólar að veita fræðslu um siðfræði, almenn mannréttindi og almenna trúarbragðafræðslu.