Rannsóknarskýrslan, bindi 7

Eftirtalið er úr Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þetta er bein tilvitnun.

21.4.2 Ríkisstjórnin

Fyrir liggur að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausa-
fjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á
leið. Hvorki verður séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum
þeirra sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar rík-
isstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (við-
skiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórn-
inni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag
og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið
riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun
um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi.
Frá því í byrjun árs 2008 höfðu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna fengið upp-
lýsingar um vanda fjármálafyrirtækja landsins á fundum með bankastjórn
Seðlabanka Íslands. Þá fengu þeir ráðherrar sem áttu fulltrúa í samráðshópi
stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað upplýsingar um að hvaða
verkefnum samráðshópurinn vann á hverjum tíma en áhyggjur af stöðu
íslensku fjármálafyrirtækjanna og umræður um nauðsyn viðbúnaðaráætlunar
vegna fjármálaáfalls fóru vaxandi á þeim vettvangi.
Til skýringar á því að málefni bankanna hafi ekki verið tekin upp í rík-
isstjórn hefur rannsóknarnefndin m.a. fengið þær athugasemdir frá Geir H.
Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í bréfi, dags. 24. febrúar 2010, að þau hafi
verið viðkvæm trúnaðarmál. Hefðu upplýsingar um þau borist út af fundum
ríkisstjórnar, eða jafnvel aðeins frést að þau væru rædd þar sérstaklega, hefði
það getað valdið tjóni. Málefni bankanna hafi því ekki verið tekin á formlega
dagskrá ríkisstjórnarfunda en verið reifuð undir liðnum „önnur mál“ eða utan
dagskrár þegar við átti eða einhver ráðherra óskaði þess. Samkvæmt gamal­
gróinni venju hafi slíkar umræður ekki verið færðar til bókar. Af þessu tilefni
tekur rannsóknarnefnd fram að hvað sem leið störfum ríkisstjórnarinnar fram
á sumar 2008 virðist þessi venja ekki hafa staðið í vegi fyrir því að bókað væri
í fundargerð ríkisstjórnar 12. ágúst 2008 að viðskiptaráðherra hefði lagt fram
minnisblað, dags. sama dag, um skipan nefndar um fjármálastöðugleika og lagt
til að ríkisstjórnin féllist á þær tillögur sem þar voru settar fram. Tillaga við-
skiptaráðherra fékk engar undirtektir í ríkisstjórn og var málinu frestað.
Rannsóknarnefndin tekur fram að almennt er ekki um það deilt að
neikvæðar fregnir eða orðrómur sem kvisast út um afstöðu eða fyrirhugaðar
aðgerðir opinberra aðila á vettvangi fjármálamarkaðar geti orðið til þess að
hreyfa við aðilum á markaðnum og jafnvel auka á þann vanda sem við er að
etja. Það hlýtur þó að heyra til skyldna ráðherra sjálfra, og þá einkum forsæt-
isráðherra, að búa svo um hnútana í skipulagi og starfi ríkisstjórnar að hægt
sé að ræða þar í trúnaði um viðkvæm mál sem varða mikilsverða og knýj-
andi almannahagsmuni. Hvað sem öðru líður hlýtur sú aðstaða að veikja starf
stjórnvalda verulega ef vantraust veldur því að slík málefni komi yfirhöfuð
ekki með neinum raunhæfum hætti fram á vettvangi ríkisstjórnar. Rétt er að
benda á ákvæði 17. gr. stjórnarskrárinnar í þessu sambandi. Samkvæmt þeim
er skylt að ræða nýmæli í lögum og „mikilvæg stjórnarmálefni“ á ráðherra-
fundum, eða ríkisstjórnarfundum eins og þeir kallast að jafnaði.
Enda þótt hver ráðherra fari sjálfstætt með málefni sem undir hann heyra
samkvæmt málefnaskiptingu innan stjórnarráðsins verður í samræmi við
stjórnarskrána að gera ráð fyrir að „mikilvæg stjórnarmálefni“ séu tekin til
umræðu í ríkisstjórn þannig að aðrir ráðherrar hafi tækifæri til að bregðast
við og hafa áhrif á stefnumörkun ríkisstjórnar og síns ráðuneytis. Hér þarf
líka að hafa í huga að það getur skipt máli hvað skráð er um mál í fundargerð
og gögn ríkisstjórnarinnar ef síðar reynir á hvort gerðar hafi verið viðhlítandi
ráðstafanir af hálfu ráðherra í tengslum við tiltekna stjórnarframkvæmd og
hverjir úr hópi ráðherra hafi átt þar hlut að máli.
Þrátt fyrir að stjórnarskráin geri ráð fyrir að ræða skuli á ríkisstjórn-
arfundum „mikilvæg stjórnarmálefni“ hefur þróunin orðið sú með sam-
steypustjórnum síðustu áratugi að óformlegir fundir og samráð formanna
ríkisstjórnarflokkanna, oddvita ríkisstjórnar á hverjum tíma, hafa fengið aukið
vægi við stefnumörkun og eiginlega ákvarðanatöku í starfi ríkisstjórnar.

[…]

Blaðsíða 259 – 260, Bindi 7.

One Reply to “Rannsóknarskýrslan, bindi 7”

  1. Vitum við eitthvað um innihaldið á þessu plaggi viðskiptaráðherra frá 12.8.2008 þar sem lögð er til “skipan nefndar um fjármálastöðugleika og lagt til að ríkisstjórnin féllist á þær tillögur sem þar voru settar fram.”?
    Var það þessi nefnd sem ákvað að henda fleiri hundruð milljörðum af almannafé í verðlausa sjóði sem um 2% landsmanna nutu góðs af? Hef aldrei skilið þá ákvörðun, gríðarleg mismun og að auki er verið að hana gegn okkur vegna Icesave.

Comments are closed.