Rökleysan um hættuna af nafnleysi (um eyjan.is)

Rökleysan gegn því að koma í veg fyrir nafnleysi í athugasemdarkerfi Eyjunnar verður mjög svo augljóst þegar hinir nýju skilmálar Eyjunnar fyrir því að fólk skrifi þar inn athugasemdir eru skoðaðir.

Hérna eru hinir nýju skilmálar Eyjan.is svo að maður geti skrifað þar inn athugasemdir.

1. Markmiðið með ummælum á Eyjunni er að kalla fram líflegar, gagnlegar og skemmtilegar umræður og skoðanaskipti.
2. Öll ummæli eru á ábyrgð þess, sem viðhefur þau.
3. Eyjan áskilur sér rétt til að fjarlægja ummæli sem eru ærumeiðandi, ógnandi eða varða við lög á annan hátt.
4. Ummælum og aðgangi notenda, sem uppvísir verða að því að villa á sér heimildir, verður eytt.
5. Eyjan lætur engum í té persónuupplýsingar um notendur nema að undangengnum dómsúrskurði í sakamáli.
6. Nýjir notendur skrá sig með sínu fullu nafni, kennitölu og netfangi.
7. Aldurstakmark notenda er 18 ár.

(25. febrúar 2011)

Tekið héðan.

Þessir skilmálar hefðu alveg eins getað gilt þó svo að nafnleysi hefði verið viðhaft. Enda hefðu þá allar athugasemdir verið eign þeirra sem skrifuðu þær en ekki eyjan.is eða ritstjórnar hennar. Þetta hinsvegar
þýðir að þessi hérna útskýring ritstjóra Eyjunnar er ekkert nema bölvuð helvítis þvæla.

Hérna er útskýring ritstjóra eyjunnar á því að banna nafnleysingja í athugasemdakerfi Eyjunnar.

[…]
Ástæðurnar eru þrjár:

Eyjan verður áfram farvegur fyrir skoðanaskipti lesenda, hér eftir sem hingað til og ennú frekar. Þetta er einn helzti styrkur Eyjunnar og snar þáttur þess að hér hefur myndazt öflugt samfélag skoðanaskipta. Þannig á það að vera og vonandi styrkist það enn meira.

Í annan stað:

Það er sjálfsagður partur af siðaðra manna samfélagi, að hafi maður eitthvað misjafnt að segja um aðra, þá segir maður það upphátt og óhikað, en stundar ekki róg, níð og dylgjur í skjóli nafnleyndar. Treysti maður sér ekki til þess, þá er betra fyrir siðinn í samfélaginu að sleppa því.

Á mannamáli þýðir þetta: Þeir sem hafa fundið sér fró í því í kommentakerfi Eyjunnar að súrra saman svívirðingar um nafngreinda einstaklinga – þeir mega innan skamms gera það undir eigin nafni. Það ætti ekki að verða erfitt, hafi þeir á annað borð nafn.

Þið hin, sem hafið bæði lesið og sett inn komment sem varpa ljósi á málefni sem til umræðu eru, komiði fagnandi. Kommentin þurfa hvorki að vera sérstaklega gáfuleg né heldur með tilvitnunum í Njálu – þau eiga bara að lýsa því sem okkur finnst sem manneskjum um það sem okkur liggur á hjarta, án þess að meiða aðrar manneskjur að ósekju.

En við eigum endilega að halda áfram að kýta, með öllum þeim rökum, útúrsnúningum og skemmtilegum skætingi sem okkur langar, og finna alls kyns málflutningi allt til foráttu – því að þrátt fyrir allt er helmingur fólks undir meðalgreind – og ekki gefa neinn afslátt af því.

Það er vel hægt án þess að kasta skít og óhroða.

Þriðja ástæðan er mjög praktísk og eiginhagsmunaleg:

Ég hef nú ekki verið hér í nema tvo daga, en það hef ég þó lært af hundinum Lúkasi, að ég hef ekkert efni á því að standa í málaferlum út af einhverri vitleysu sem skrifuð er á Eyjuna og ég ber ábyrgð á.

Þetta hér er ekki skröksaga: Þar sem ég kjamsaði á kótelettum hjá Mömmu Steinu á Skólavörðustíg í gærkveldi hringdi í mig kona – hún heitir Sirrý – og bað mig þess lengstra orða að fjarlægja ummæli á Eyjunni þess efnis, að helvíti væri of góður staður fyrir Illuga Gunnarsson að lenda á.

Ég vissi að svona dónaskapur tíðkaðist á Eyjunni og að engin leið er fyrir okkur hér að fylgjast með því öllu.

Illugi er að vísu séntilmaður og myndi aldrei gera veður út af soddan nokkru. Það eru hins vegar ekki allir þannig innréttaðir.

Nýlegur dómapraxís segir mér að við fótboltafréttamaðurinn gætum þurft að eyða hálfum deginum fyrir framan dómara að verja eitthvert rugl sem einhver nafnlaus vitleysingur skrifaði á Eyjuna og við berum ábyrgð á.

Ég nenni ekkert að standa í því. Og hef heldur engin efni á því.
[…]

Sitt og hvað um Eyjuna. Karl Th. Birgisson þann 16. Febrúar 2011.

Þessi útskýring er því ekkert annað en tóm della eins og ég segi hérna að ofan. Vegna þess að í nýjum skilmálum eyjunnar þá tekur ritstjórnin af allan vafa um að vefurinn beri ekki ábyrgð athugasemdum sem þar berast inn í kringum fréttir og aðrar greinar sem þar eru skrifaðar. Þessi dómstóla útskýring Karls er einnig að sama skapi merkt því marki að vera tóm della miðað við þessa nýju skilmála sem þeir settu í dag.

Ég ætla ekki að skrá mig í þetta nýja athugasemdakerfi á eyjan.is. Enda hef ég engan áhuga á því að láta mann sem er gjörspilltur og í framsóknarflokknum fá kennitöluna mína. Enda er augljóst að Pressan.is keypti aðeins upp eyjuna til þess að getað lokað þeim vef þegar aðstæður leyfa (eftir tvö til þrjú ár mundi ég halda).

Þessir menn geta því átt þessa eyjuna sína. Enda er hún að sökkva með manni og mús þessa dagana og eins og komið er fyrir henni. Þá verður enginn söknuður af því þegar eyjan.is hverfur af sjónarsviðinu. Ég vona hinsvegar að Björn Ingi verði rannsakaður sem fyrst fyrir undarlega fjármálagjörnina í krafti stöðu sinnar sem alþingismaður á tíma “góðærisins”, sem og önnur verk sem og ákvarðanir sem hann hefur komið nálægt í gegnum tíðina.