Óraunverulegur raunveruleiki hjá andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum. Þá eru andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi margir hverjir ekki alveg í sambandi við raunveruleikann. Þessu til sönnunar er best að benda á nafnlausa grein á vefnum Evrópuvaktin, sem er ritstýrð af Birni Bjarnarsyni (fyrrverandi ráðherra osfrv) og Styrmi (fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins).

Í þessari grein á Evrópuvaktin er talað um trójuhesta og annað slíkt. Þar er óbeint hreinlega verið að saka fólk um að vera landráðamenn og annað slíkt fyrir það eitt að stoppa ekki aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.

Hérna er öll greinin til greiningar.

Trójuhestar ESB á Íslandi?

Þegar heimsveldum gengur illa að ná undir sig löndum koma þau sér gjarnan upp Trójuhestum. Hverjir ætlu séu þeir Trójuhestar, sem Evrópusambandið er að koma sér upp á Íslandi til þess að auðvelda því að ná yfirráðum yfir íslenzka lýðveldinu? Ekki verða Samfylkingarmenn sakaðir um það enda fara þeir ekki leynt með þá fyrirætlan sína að koma Íslandi undir yfirráð Brussel.

Trójuhestarnir eru þeir, sem þykjast vera annað en þeir eru. Tveir af forystumönnum VG, þeir Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðsson þreytast ekki á því að segja að þeir séu andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þegar grannt er skoðað er hins vegar ekkert samhengi á milli orða þeirra og gerða. Steingrímur J. hefur til þessa dags greitt fyrir öllu, sem hann hefur þurft að greiða fyrir til þess að ýta undir aðild Íslands að ESB enda gengur hnífurinn ekki á milli hans og Össurar Skarphéðinssonar í málinu. Árni Þór Sigurðsson segist í orði vera á móti aðild að ESB en verk hans segja allt aðra sögu ekki sízt verk hans (og verkleysi) sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Það er því ekki fráleitt að ætla að þar séu á ferð Trójuhestar ESB á Íslandi. En eru þeir kannski fleiri?

Það er alvarlegt umhugsunarefni.

Takið eftir því að talað er um Evrópusambandið sem heimsveldi. Staðreyndin er hinsvegar sú að Evrópusambandið er ekki heimsveldi. Frakkland er heimsveldi, Bretland er heimsveldi, Ítalía er heimveldi, Evrópusambandið er ekki heimsveldi. Það sem munar þar er sú staðreynd að Evrópusambandið er ekki ríki og getur því ekki verið heimsveldi. Stök aðildarríki Evrópusambandsins geta verið heimsveldi (örfá aðildarríki Evrópusambandins eru það) upp á sínar eigin spýtur.

Sú alvarlega bilun sem margir andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi hafa getur og jafnvel mun verða íslensku þjóðinni dýr þegar fram líða stundir. Enda mun höfnun íslendinga á ESB aðild þýða áframhaldandi verðtryggingu á Íslandi, óstöðugt gengi íslensku krónunnar og áframhaldandi sveiflur á verðbólgu og rýrnandi kjör íslensks almennings. Í þessari grein er einnig gengið upp með það að Steingrímur J, og Árni Þór séu landráðamenn (orð sem andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi nota mikið) og eitthvað þaðan af verra.

Þess má einnig geta að allar líkur eru á því að hinn kristni öfgamaður Jón Valur Jensson hafi skrifað þessa grein á Evrópuvaktin. Enda er það eini maðurinn (fyrir utan örfá önnur hits á Google) sem notar orðið „sízt“ með zetu.

Það er hinsvegar með ólíkindum að svona málflutningur skuli fá að komast áfram í umræðunni á Íslandi. Sérstaklega í ljósi þess þetta er svo mikið geðveiki og rugl að það nær ekki nokkurri átt. Á þessu hinsvegar keyrir öll barátta andstæðinga Evrópusambandsins á Íslandi. Það er að kenna fólk við landráð, svik og fleira í þeim dúr.

Það hafa ekki komið fram neinar lausnir, eða útskýringar frá andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi um það hvernig þeir ætla sér að koma efnahagsmálum á Íslandi í lag, eða þá hvernig þeir ætla sér að laga vandamálið verðtrygginguna. Ekkert slíkt hefur komið fram hjá þeim stjórnmálaflokkum sem hafa sett sig upp á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það má því reikna með því sama gamla frá þeim stjórnmálaflokkum sem eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá sögu þekkja flestir íslendingar, og verður hún því ekki sögð hérna núna.