Miðaldamaðurinn Jónas

Mér er farið að ofbjóða sú umræða sem er stunduð á Íslandi gegn flóttamönnum, innflytjendum og almennt fólki sem kemur erlendis frá. Fullyrðingar og annað slíkt um þetta fólk eru ekkert annað en lygar og blekkingar hjá mörgum. Staðreyndin er nefnilega sú að ofbeldi innfæddra er oft á tíðum meira en innflytjenda í mörgum ríkjum. Núna síðast talar Jónas á vef sínum um að innflytjendur og flóttamenn hafi verið ábyrgir fyrir árás á konur í Köln, Hamburg og víðar. Jónas hinsvegar sneiðir alveg fram hjá því að talið er að þetta sé ekki flóttamenn eða innflytjendur þarna, þó svo að umræddir einstaklingar hafi kannski verið að uppruna frá Marókkó eða öðrum ríkjum Afríku. Talið er líklegt að þarna hafi verið um þjóðverja að ræða.

Hinsvegar finnst mér þetta allt saman vera mjög gruggugt mál og of einfalt. Þetta lyktar nefnilega af uppsetningu að mínu áliti, þar sem verið er að koma sök á hóp fólks í Þýskalandi með því að kenna það við ofbeldi. Lögreglurannsóknin mun komast að hinu sanna en ég óttast að fjölmiðlar muni ekki sína niðurstöðum þeirrar rannsóknar neina athygli þegar niðurstaðan kemur fram. Staðreyndin er ennfremur sú að Jónas er einnig frá miðöldum. Hugsunarháttur hanns og hugarheimur bendir ekki til neins annars og hefur sjaldan gert neitt annað. Hann klæðir þetta stundum í nútímalegan búning en það er blekking og hefur ekkert með raunveruleikann að gera um það hvernig Jónas hugsar og sér heiminn í kringum sig. Útgáfa Jónasar af heiminum er nefnilega sama útgáfa sem fólkið sem hatar útlendinga notar, þetta er einfaldlega bara annað sjónarhorn og í öðrum klæðum.

Hvað trúarbragðasjónarhornið varðar, þá skal er það mín skoðun að öll trúarbrögð séu vond og kjánaleg. Enda ala öll trúarbrögð á hatri gegn fólki sem er öðruvísi, sérstaklega ef það hefur öðruvísi kynhegðun en sá sem trúarritið hefur samþykkt (sem er yfirleitt ekkert nema kynlíf karls og konu, eða í tilfelli Íslam þar sem fjölkvæni er heimilt með skilyrðum). Síðan hvetja öll trúarbrögð til ofbeldis gegn einstaklingum sem ekki tilheyra þeirra eigin trúarbrögðum (þetta er í öllum trúarbrögðum). Ef hugmyndafræði þín hvetur ekki til ofbeldis gegn fólki, þá ertu líklega kominn í eitthvað sem er nær heimspeki heldur en trúarbrögðum. Trúarbrögð eru hugmyndafræði sem er og hefur alltaf verið hættuleg mannkyninu, eins og sést núna á nýjustu borgarastríðunum í mið-austurlöndum.