Það verður engin stjórnarkreppa

Margir eru hræddir við að boðað sé til kosninga í því efnahagsumhverfi sem er ríkjandi þessa stundina. Ástæðan virðist vera sú að það er ranghugmynd á ferðinni um hvað mundi gerast ef það yrði kosið hérna á landi.

Því hefur nefnilega verið haldið fram að ef yrði kosið núna, þá yrði stjórarkreppa. Þetta er rangt, þetta er ekki aðeins rangt, þetta er kolrangt. Stjórnarkreppur eru til í tveim gerðum, fyrsta gerðin er þegar þeir flokkar sem fá mesta fylgið í kosningum geta ekki samið og myndað starfshæfa ríkisstjórn. Síðast gerðist þetta í Belgíu og varði í rúmlega 9 mánuði. Hin gerðin af stjórnarkreppu er það þegar samstarfsflokkar í ríkisstjórn geta ekki unnið saman að sameiginlegum málefnum, eins og t.d hagstjórn Íslands. Að mínu álti þá er komin væg útgáfa af þessari gerð af stjórarkreppu hérna á landi. Þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn neitar að verða við óskum samstarfsflokksins og virðist fara sínar eigin leiðir þegar það kemur að “lausnum” á efnahagsvanda þjóðarinnar (sem hann kom þjóðinni sjálfur í). Einnig sem að Sjálfstæðisflokkurinn er að verja vanhæfan Seðlabankastjóra, þvert á óskir samstarfsflokksins. Í mínum huga hefur þarna orðið ekkert nema trúnaðarbrestur á milli flokkana og þess vegna sé í raun ríkjandi stjórnarkreppa hérna á landi.

Ef að þing er rofið, eins og almenningur á rétt á í dag. Þá halda bæði alþingismenn og ráðherrar stöðum sínum þangað til að búið er að kjósa nýtt þing og skipa nýja ráðherra til starfa. Þannig að ríkisstjórnin mun ekki hætta að starfa þó svo að boðað væri til kosninga hérna á landi.

Kosningar eru nauðsynlegar á Íslandi, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist trausti þjóðarinnar og hefur í raun svikið hana blákalt. Sérstaklega með því verja Seðlabankastjóra sem er gjörsamlega vanhæfur til starfans og hefur hvorki þekkingu eða getu til þess að sinna því embætti sem hann er í. Ennfremur er það orðið augljóst að ríkisstjórnin er ekki fær um að valda því verki að rétta við efnahag landsins. Sérstaklega þar sem að ríkisstjórnin lokar á langtímalausnir, svo sem EB (ESB) og upptöku evru.

Í græðgi sinni, þá hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ákveðið að almenningur á Íslandi skuli borga fyrir þeirra vanhæfni og græðgi. Þeir sem núna sitja við völd eru nefnilega ekki hluti af lausninni, þeir eru hluti af vandamálinu og sem slíkir þá verður að fjarlægja þá. Helst sem fyrst.

Ég skora á alla að skrifa undir á kjosa.is, það liggur á að koma núverandi ríkisstjórn frá völdum og boða nýjar kosningar. Þar sem að núverandi stjórnvöld gera ástandið stöðugt verra með vanhæfni og heimsku sinni.