Epla sniglar

Þá er maður búinn að koma sér upp fiskabúri. Ég eignaðist þetta fiskabúr reyndar í sumar og hef ekkert gert við það fyrr en núna. Ég er með þrjá sngila núna og er að koma mér inní það hvernig á að sjá um svona dýr. Ég á eftir að fá mér fiska, en ég er bara ekki búinn að ákveða hvernig fiska ég ætla að fá mér. Þetta er mjög áhugavert og ekki verri gæludýr en hver önnur.

Einn dagur eftir af árinu

Í dag er bara einn dagur eftir af árinu, þá einn heill dagur. Og síðan er hægt að bæta við þessum klukkustundum sem eru eftir af deginum í dag. Og áður en maður veit, þá er árið 2006 komið og farið að telja niður. Árið í ár er búið að vera mjög áhugavert og talsvert verið um upp og niður tímabil hjá mér. En núna verður áhugavert að sjá hvað gerist á næsta ári.

Desember leti

Ég er orðinn latur, þetta er bara hin venjubundna Desember leti í mér. En maður er einfaldlega að vinna niður stressið sem er í kringum mann á þessum síðustu dögum fyrir jól. Ég er hinsvegar ekki stressaður, ég er sallarólegur og skil ekki hvað þessi læti snúast. Enda snúast jólin ekki um hversu flottar gjafir fólk gefur, heldur snúast jólin um að vera með fjölskyldunni og vinum, og hafa það gott svona til tilbreytingar. En þetta er allavega mitt mat.

Fullveldisdagurinn

Í dag, þann 1 Desember er Fullveldisdagur Íslendinga. Hvort að íslendingar muni um hvað þessi dagur er veit ég ekki. En fyrir þá sem þekkja söguna þá táknar þessi dagur merkan áfanga í baráttu íslendinga fyrir sjálfstæði landsins frá hinu danska nýlenduveldi.

En nóg um það. Þessi dagur táknar einnig að það eru bara 30 dagar þangað til að árið 2006 kemur. Og einnig það að árið 2005 flaug fram hjá manni án þess að maður raunverulega tæki eftir því.

Svona er lífið.

Á netkaffi sit ég og skrifa…

Ég er þessa stundina staddur á netkaffi í kringlunni og er aðeins að kíkja inná internetið. Var að koma af Landsfundi Vinstri Grænna. En ég var að fylgjast með hinum ýmsum málum þar. Ég er að spá í að skreppa í bíó, enda hef ég ekkert betra að gera sem stendur.

En næstu skrif frá mér verða ekki fyrr en á Mánudaginn, en ég tek mér frí frá skrifum hérna á Sunnudögum ef ég get.