Hættuleg hefðarstjórnmál á Íslandi

Það eru tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem bera þess merki að hafa verið of lengi við völd á Íslandi. Þetta eru stjórnmálaflokkanir Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Þessir stjórnmálaflokkar hafa verið við völd á Íslandi lengur en nokkrir aðrir stjórnmálaflokkar. Þegar sagan er skoðuð, þá kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa setið við völd á Íslandi næstum því allan tímann frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1944. Fyrir þann tíma voru þessir stjórnmálaflokkar einnig við völd meira og minna frá stofnun þeirra, og frá þeim tíma að íslendingar urðu fullvalda þjóð (eða forverar þeirra í einni eða annari mynd).

Það er alveg augljóst að svona mikil valdaseta skapar spillingu í kerfinu, enda verður kerfið rotið af innan af flokksmönnum sem líta á sig sem ósnertanlega í valdi flokksins sem þeir tilheyra. Önnur niðurstaða af svona mikilli valdasetu er sú að það skapast hefð fyrir valdasetu þessara flokka í huga almennings, jafnt í landsstjórnmálum og sveitarstjórnarmálum. Jafnvel þó svo að þeir leggi allt gjörsamlega í rúst, og á þann hátt að engu verður viðbjargandi hérna á landi. Eins og varð raunin í hruninu á haustmánuðum árið 2008. Þessi hefð skapar einnig sín vandamál, helst ber að nefna það að fólki finnst allir flokkar sem taka við standa sig illa (jafnvel þó að þeir standi sig ekki illa), eða vera á einhvern hátt ósambærilega við langtímastjórnmálaflokkana á Íslandi. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að þetta fyrirbæri er nú þegar farið að sýna sig á Íslandi, og þetta fyrirbæri er stórhættulegt lýðræðinu. Enda vex fylgið við þá tvö stjórnmálaflokka sem bera mesta ábyrgð á fjármálahruni Íslands, og bera jafnframt ábyrgð á þeirri spillingu sem varð valdandi að þessu fjármálahruni á Íslandi.

Hættuleg er hefðin á Íslandi

Sú stjórnmálahefð sem er kominn upp á Íslandi er augljóslega stórhættuleg, og á ekkert skylt við það lýðræði sem íslendingar vilja kenna sig við. Eins og kemur fram hérna að ofan, þá skapar svona mikil valdaseta spillingu í kerfinu, sem veldur því að kerfið verður rotið að innan, en það veldur því að kerfið verður ótraust þegar á reynir. Kerfið virkar þegar allt er í lagi, þegar aðstæður breytast og þrýstingur kemur á kerfið. Þá fer það að hiksta, og síðan kemur óhæfan og spillingin í ljós með öllum sínum ljótleika.

Lausnir til úrbóta

Ljóst er að eitthvað þarf að gera við þessu ástandi. Bæði þarf að setja lög og tryggja erlent aðhald á íslenskri stjórnsýslu. Íslendingar verða sjálfir að setja lögin hérna á landi, hinsvegar er hægt að tryggja erlenda aðhaldið með því að ganga í ESB. Fyrsta skrefið hefur verið tekið í þá átt, með því að sækja um aðild að ESB. Það eykur þrýstingin á heiðarlega stjórnsýslu á Íslandi, eingöngu vegna þeirra krafa sem ESB setur væntanlegum aðildarríkjum, og síðar aðildarríkjum ef viðkomandi ríki gengur í ESB eftir að umsóknar og samningsferli líkur. Það er ekki slegið af kröfunum, þó svo að viðkomandi ríki er gengið inn í ESB.

Áróður fylgjenda kerfisins

Síðustu vikur, og mánuði hefur verið mikið um áróður gegn stjórnmálaflokknum Samfylkingunni (sem ég er meðlimur í) og Vinstri Grænum. Þessi áróður er eingöngu sprottin upp af þeim sem vilja halda í það kerfi sem þeir græða á, beint eða óbeint. Síðan eru þeir sem hræðast breytingar, og standa því gegn breytingum í stjórnsýslu og breytingu á valdahlutföllum stjórnmálaflokkana. Þessi áróður hefur verið hrikalegur síðan Samfylkingin og Vinstri Grænir tóku við. Nóg er af dæmum ef blogg og athugasemdir við fréttir eru lesnar. Þessi áróður á hinsvegar ekkert skylt við uppbyggilega stjórnarandstöðu, heldur er hérna eingöngu um að ræða áróður sem hefur það markmið að koma núverandi stjórnarflokkum (Samfylkingu og Vinstri Grænir) frá völdum. Enda er augljóst að ef þessir flokkar komast ekki aftur til valda, þá verður hægt en örugglega flett ofan af spillingunni innan stjórnkerfisins, spillingu sem komst á í valdatíma fyrrverandi stjórnarflokka (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur). Einnig sem að þeir tapa heimildarmönnum innan stjórskerfsinn eftir því sem aðrir stjórnmálaflokkar en þeir sjálfir sitja við völd.

Það er mikilvægt að þekkja uppbyggilega stjórnarandstöðu frá hreinræktuðum áróðri þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, og þeirra sem óttast um völd og áhrif sín á samfélagið.

Yfirgefum hefðina

Íslendingar þurfa að hætta að fara eftir hefðinni, þar sem hefðin kom okkur í þessa stöðu. Það sem kemur okkur úr þessari stöðu er andstaðan við hefðina, og stuðningur við þá stjórnmálaflokka sem sitja við völd er einnig mikilvægur, enda er það þeirra að þrífa skítinn eftir áratuga valdasetu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.