Grein um þjóðernishyggju á Íslandi í sambandi við ESB umræðuna

Hérna er góð grein um þá þjóðernishyggju sem plagar umræðuna á Íslandi varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB. Ég veit ekki hversu gömul þessi grein er, en ég reikna með þetta sé nokkura ára gömul grein.

Nokkrir punktar úr þessari grein.

Pólitíkin er duttlungafull skepna eins og allir vita. Fyrir um tveimur árum þegar ég vann við grein mína „Discussing Europe: Icelandic Nationalism and European Integration“ fyrir bók Baldurs Þórhallssonar, Iceland and European Integra­tion, var Evrópu­sambandið efst á baugi í íslenskum stjórnmálum ? kannanir birtust í fjöl­miðlum nær daglega sem sýndu sitt á hvað eindreginn stuðning meðal almennings við umsókn í sambandið eða skýra and­stöðu við inngöngu. Stjórnmálamenn hentu þessar fréttir á lofti til stuðnings sinnar eigin afstöðu, allt eftir því hvað hentaði þeim best hverju sinni. Á þessum tíma virtist allt benda til þess að afstaðan til Evrópu­sambandsins yrði mál málanna í alþingiskosningum sem þá voru í undirbúningi. Þegar til kom þurfti þó ekki nema eitt stórt bollumál til að ryðja ESB út af borðinu og þangað hefur sambandið varla komist síðan. Í kosningabaráttunni virtust allir stjórn­málaflokkarnir sammála um að ræða ekki Evrópumálin, þau töldust einfaldlega ekki vera á dagskrá, og á síðustu vikum, eftir að Baugur varð efstur á baugi í þjóðmálunum er eins og þau hafi endanlega sokkið niður fyrir sjóndeildarhring stjórnmálanna.

Að hluta til stafar þetta af því að íslenskir stjórnmálamenn hafa í raun aldrei verið neitt sérstaklega áfjáðir í að ræða um þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum. Það er þannig alkunn stað­reynd að afstaða þeirra til Evrópusambandsins sker sig nokkuð úr því sem þekkist í öðrum löndum álfunnar þar sem almenningur er víðast hvar í nágrannalöndum okkar nokkuð efins um ágæti sambandsins, á meðan allstór meiri­hluti ráða­manna ? ?elítunnar? ? styður veru landa sinna í því eða inngöngu í það með ráðum og dáð. Þessi sérstaða Íslands er einmitt helsta viðfangs­efni bókarinnar sem hér er til umræðu, þótt hún gefi, eins og títt er með bækur fræði­manna, engin einhlít svör við spurningunni. Í inngangi bókar­innar er lagt til að við­fangsefnið sé kannað út frá sex tilgátum, sem hver um sig tengist almennum fræðileg­um kenningum um hegðun smá­ríkja á alþjóðavettvangi, frekar en að leita einnar, altækrar skýringar á sérstöðu Íslands í þessu efni ? og liggur þar sjálfsagt að baki sú staðreynd að við flóknum samfélags­legum spuningum fást sjaldan einföld svör. Sú tilgáta sem fram kemur í grein minni hljóðar einhvern vegin svona ? í íslenskri þýðingu:

[…]

Nærtæk skýring á þessu er sú staðreynd að íslensk stjórnmál mótuðust í sjálfstæðisbaráttu við Dani þar sem fullveldi landsins var hið heilaga markmið stjórn­málanna. Það er engin tilviljun að stærsti stjórnmálaflokkur landsins heitir Sjálf­stæðisflokkur, en nafnið vísar sem kunnugt er með tvennum hætti til sögu sjálfstæðis­baráttunnar: Fyrri vísunin kemur fram í nafninu sjálfu, þ.e. flokkurinn er flokkur sjálfstæðis Íslands, en hin síðari í því að hann ber nafn Sjálfstæðisflokksins eldri og heldur því merki hans á lofti löngu eftir að sjálfstæðisbaráttunni við Dani er lokið.

Önnur skýring á styrk þjóðernisstefnunnar á Íslandi er sú að enda þótt allnokkuð sé nú liðið síðan sjálfstæðisbarátt­unni lauk þá eru þeir sem nú ráða mestu í íslenskum stjórnmálum ein fyrsta kynslóð stjórnmálamanna sem tók ekki beinan þátt í þeim slag. Flestum þeirra er eflaust í fersku minni þegar handritin komu ?heim? árið 1971, en sá atburður er eins konar táknrænn endir deilnanna við Dani og endanleg viðurkenning herraþjóðarinnar fyrrverandi á því að Íslendingar væru þjóð með þjóðum. Arfsögn sjálfstæðisbar­áttunnar mótar því enn lífsviðhorf margra íslenskra stjórnmálamanna með beinum hætti, á sama hátt og hún á sterkar rætur í hugum mikils fjölda kjósenda, enda tóku núverandi ráðamenn við kyndlinum af mönnum sem tekið höfðu beinan þátt í lokasennum sjálfstæðisbaráttunnar.

[…]

Það er enginn vafi í mínum huga að þessi viðhorf til sjálfstæðisins hafa mótað hugmyndir íslenskra stjórnmálamanna til Evrópusambandsins. Fáir miðju-hægriflokkar í Evrópu eru jafn andsnúnir sambandsaðild og Sjálfstæðisflokkurinn ? jafnvel forystumenn í Íhaldsflokknum í Bretlandi leggja mér vitanlega ekki til að landið segi sig úr sam­bandinu þótt þeir finni því annars flest til foráttu. En um leið og ég legg áherslu á að þjóðernisstefnan sé ákveðinn lykill að skilningi á viðbrögðum íslenskra ráðamanna til ESB vil ég taka fram að þetta segir aðeins hálfa söguna. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir að afstaða íslenskra ráða­manna til fullveldisins hafi oft verið mjög ídealísk, þá hafa gerðir þeirra ávallt einkennst af mjög ákveðnu raunsæi. Þannig stigu íslenskir stjórnmálamenn á stokk við stofnun lýðveldis og hétu því að láta hið heilaga fullveldið aldrei af hendi aftur. Samt leið innan við áratugur þar til þessir sömu menn afhentu Bandaríkjamönnum íslensk varnarmál, sem höfundar, allt frá Jean Bodin á 16. öld til Zygmunts Baumans við lok hinnar 20., hafa litið á sem eina helstu stoð fullveldis­ins. Sami tví­skinnungur ? eða raunsæi, allt eftir því hvernig menn líta á málin ? hefur komið fram í Evrópumálunum, þar sem sömu stjórn­málamenn og sverja að berjast með oddi og egg gegn afsali fullveldis til ESB höfðu forgöngu um samþykkt EES-samnings, en með vissum rökum má halda því fram að í honum felist jafnvel meira fullveldis­afsal en með fullri aðild að Evrópusambandinu. Því sýnist mér sem svo að íslenskir stjórn­málamenn óttist í raun og veru ekki afsal fullveldis sem slíkt, þ.e.a.s. ef þeir telja hagsmunum lands og þjóðar best borgið með slíku afsali þá hafa þeir ekki hikað við að leggja það til. Aftur á móti eiga þeir mjög erfitt með að viðurkenna slíkt fullveldis­afsal vegna þess að slíkt kallar ávallt á ásökun um svik við hinn æðsta draum Íslendinga ? sjálfstæðið.

[…]

Hægt er að lesa alla greinina hérna fyrir neðan.

Íslensk þjóðernisstefna og orðræðan um Evrópumál