Ísland í hnotskurn

Í Speglinum á Rás 2 er að finna þessa hérna áhugaverðu grein eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Hérna er tilvitnun í pistil Sigrúnar sem lýsir ástandinu á Íslandi mjög vel.

[…]

Einn erlendur starfsmaður eins bankanna hafði á orði að Íslendingum væri almennt illa við gagnrýni. Í stað þess að taka gagnrýni sem athugasemdum við eitthvert tiltekið atriði hrykkju Íslendingar í þann gír að fara að spá í af hverju gagnrýnin væri borin fram – hvort hún stafaði af annarlegum hvötum eins og öfund, hvort gagnrýnandinn vildi koma höggi á einhvern og svo framvegis. Sjálft gagnrýnisatriðið drukknaði í öllum þessum óviðkomandi vangaveltum sem gagnrýnin vakti. Þessi starfsmaður hafði fljótt lært að íslensku stjórnendurnir skildu ekki þá örvun sem uppbyggileg gagnrýni felur í sér.

Einn íslenskur bankamaður sagðist eftir á hafa áttað sig á að það hefðu ekki verið í gangi neinar umræður í bankanum um áherslur og stefnu. Þeir sem hefðu átt framgang í bankanum hefðu verið fremur veikir aðilar með svipaðan bakgrunn og afstöðu og stjórnendur, auðvitað duglegir en ekki sjálfstætt fólk með sjálfstæðar skoðanir.

[…]

Um miðjan tíunda áratuginn heimsótti ég Íslendingabyggð sem þá hafði myndast í Hanstholm á Norður-Sjálandi. Þar bjuggu þá um 400 Íslendingar. Í Íslendingabyggðinni hafði orðið rígur milli tveggja einstaklinga, nokkurs konar leiðtoga hópsins, sem lauk með því að annar flutti í burtu. Þegar ég lét í ljós undrun á flokkadráttunum var mér bent á að svona væri þetta í litlum byggðarlögum á Íslandi, einhver sterkur einstaklingur sem öllu réði. Þetta er athyglisvert því þetta er í eðli sínu einkenni goðaveldsins.

Þeirri kenningu hefur einmitt áður verið fleygt í Speglinum að íslenska goðaveldið hafi í raun aldrei liðið undir lok. Að í fyrirtækjum og reyndar víðar í þjóðfélaginu byggist valdakerfið á sterkum einstaklingum sem hafa í kringum sig jámenn sem efast ekki um gjörðir þeirra. Íslendingar vilji gjarnan líta á sig sem þjóð sjálfstæðs fólks en hegðun þeirra einkennist oft þvert á móti af fylgispekt við leiðtoga sem eru ekki dregnir í efa. Gagnrýni er drepin niður með því að vera talin merki um annarleg sjónarmið.

Það mætti halda að í litlu þjóðfélagi væri tilfinningin fyrir heildinni einmitt sterk. En fjölmörg svikamál þar sem er verið að hygla mjög fáum á kostnað heildarinnar ganga þvert á þá skoðun. Aftur þetta: fjármálaglæpir eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Alls ekki. En það sem er svo sérstakt við Ísland er hvað viljinn til að hundsa almannahagsmuni, hagsmuni almennra starfsmanna, hagsmuni lítilla hluthafa, bókstaflega alla aðra hagsmuni en hagsmuni stjórnendaklíku og fylgifiska hennar, skuli vera jafn sterkur og raun ber vitni.

Svo mörg voru þau orð. Ég ennfremur tek undir þetta sem Sigrún Davíðsdóttir segir í þessum pistli. Vegna þess að þetta er raunveruleikinn á Íslandi.

Pistill Sigrúnar Davíðsdóttur í heild sinni.

Óupplýstar klíkur (Rúv.is)