Lögbann sett á torrent.is

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hefur sett lögbann á vefsíðuna torrent.is og er hún núna niðri. Hérna er frétt vísir.is um málið.

Verður að loka torrent.is

Sýslmaðurinn í Hafnarfirði hefur fallist á lögbannsbeiðni á starfsemi skráardeilingarsíðunnar torrent.is sem nokkur höfundarréttarsamtök lögðu fram fyrr í dag.
Það voru Samtök myndréttarhafa á Íslandi, Samtök tónlistarrétthafa og Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda sem fóru fram á lögbannið á vefnum og var eigandi torrent.is., Svavar Lúthersson, kallaður til yfirheyrslu hjá sýslumanninum í Hafnarfirði í morgun vegna þessa.

Sýslumaðurinn féllst svo á það að loka ætti vefnum og hafði eigandinn frest til hálffjögur til þess að gera það. Það hefur hann þegar gert. Sýslumaður féllst hins vegar ekki á kröfu höfundarréttarsamtakanna um að tölvurnar sem notaðar eru í tengslum við torrent.is yrðu gerðar upptækar á meðan málið er fyrir dómi.

Höfundarréttarsamtökin verða svo að höfða staðfestingarmál vegna lögbannsins fyrir dómi innan viku en þar reynir einnig á efniskröfur samtakanna. Þau saka eiganda torrent.is um að auðvelda og stuðla að höfundarréttarbrotum með því að heimila skráarskipti á torrent.is. Brotin snúi að ólöglegu niðurhali á sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum, tónlist og innlendum og erlendum kvikmyndum sem séu höfundaréttarvarin.

Vísir.is