Smáís hótar barni

Siðleysingjanir hjá Smáís hika ekki við að hóta 15 ára gömlum dreng, sem er samkvæmt lögum ekkert nema barn. Það er greinilegt að það er á dagskrá hjá Smáís að fara í mál við gamalt fólk, börn og aðra. Alveg eins og MPAA og RIAA samtökin í Bandaríkjunum, en þetta er einmitt sá stíll sem er notaður þar í landi. Einnig sem að RIAA hefur farið í málið við fólk sem er dáið og komið undir græna torfu.

Icetorrent lokað í dag eftir að hafa safnað sex þúsund meðlimum

Skráardeilisíðunni icetorrent.net var lokað í dag eftir að eiganda síðunnar barst athugasemd frá Smáís, Samtökum Myndrétthafa á Íslandi. Þrátt fyrir að síðan hafi aðeins verið stofnuð nú um helgina voru tæplega sex þúsund Íslendingar búnir að skrá sig þar sem meðlimir í dag.

Á síðunni var hægt að skiptast á höfundarréttarvörðum skrám, svo sem tónlist, bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Nokkrar slíkar síður hafa skotið upp kollinum síðan torrent.is var lokað með lögbannskröfu í síðustu viku.

Ábyrgðarmaður icetorrent.net var 15 ára drengur, búsettur á landsbyggðinni. Forsvarsmenn Smáís höfðu samband við drenginn og foreldra hans í dag og tjáðu honum að hann yrði að loka síðunni ella yrði gripið til aðgerða.

Foreldrunum var ekki kunnugt um að sonur þeirra héldi úti síðu sem kynni að brjóta í bága við lög og var henni því lokað seinnipartinn í dag.

Ekki munu verða eftirmálar af þessu fyrir drenginn. Hann mun hafa sloppið með tiltal.

Drengurinn útskýrði fyrri Smáís að hann hefði sett þær reglur fyrir síðuna að aðeins yrði leyfilegt að skiptast á erlendum skrám, honum var þá tjáð að það sé ekki síðra lögbrot en að skiptast íslenskum skrám.

Vísir.is

Ég mæli með því að lögbann verði sett á Smáís og framkvæmdastjóranum hent í fangelsi, enda er yfirgangurinn í þeim eitthvað sem á ekki að lýðast í íslensku samfélagi.

6 Replies to “Smáís hótar barni”

  1. Sæll Jón Frímann. Þú mátt ekki horfa fram hjá því sem stendur í fréttinni, þar sem segir meðal annars: „Foreldrunum var ekki kunnugt um að sonur þeirra héldi úti síðu sem kynni að brjóta í bága við lög…“
    Reglur um höfundarrétt eru afar skýrar. Þú mátt afrita tónlist/bíómyndir o.þ.h. til EINKANOTA.

    Mundu að þegar höfundarréttarskráðum myndum og tónlist er dreyft ólöglega, er verið að ræna höfund/flytjanda launum og beinlínis fremja glæp.

    Bestu kveðjur,

    Silli.

  2. Ég veit ekki betur en að framleiðslufyrirtækin (sem t.d standa að Smáís) séu þau sem ræna höfundana sem mest þau geta. Ég veit allavega að höfundar í Hollywood er ekki verkfalli vegna þess að þeir fá nóg borgað. Þeir eru í verkfalli vegna þess þeir fá of lítið borgað fyrir það sem þeir koma upp með, og hverjir borga þeim of lítið. Fyrirtækin sem standa að MPAA, en það er móðurfélag Smáís hérna á landi.

    Það er ekki almenningur sem er að ræna höfundana, það eru stórfyrirtækin.

  3. Það er samt almenningur sem kaupir afurðirnar. Ef almenningur hættir að kaupa, fær enginn neitt. Ég þekki ekki verklag SMÁÍS enda er ég ekki í kvikmyndabransanum. Mér væri líka nokk sama þó handritshöfundar í Hollywood yrðu í verkfalli alla tíð… Ég er meira að segja á því að heimurinn myndi a.m.k. ekki versna 🙂
    Engu að síður er ÓLÖGLEGT að dreyfa efni með skráðum höfundarrétti, sem er jú mergurinn málsins, ekki satt?

  4. Áhorf á sjónvarp og kvikmyndir minnkar stöðugt, með þessum aðferðum þá er Smáís bara að flýta fyrir eigin dauða og dauða sjónvarpssins eins og við þekkjum það. En líklega ekki kvikmynda, þó svo að líklegt er að þær verði með öðru sniði en er í dag.

    Það er ekkert sem bannar fólki að ná í þetta, enda erum við öll búin að borga skatt af hörðum diskum og fleiri búnaði sem á að renna til höfunda vegna afritunar.

  5. Enda sagði ég að það er bannað að DREYFA efni.
    Ertu alveg viss um að áhorf kvikmyndir sé á undanhaldi? Er ekki alltaf verið að slá einhver met í bíógestafjölda, eða er það liðin tíð?

    Ég er alveg sammála þér með að formið á eftir að breytast og er reyndar þegar farið að gera það, sbr. útgáfu Mugison, Radiohead o.fl. á netinu. Þannig verður kostnaður við framleiðslu mun minni, færri milliliðir og allir græða.

    Hafðu það gott góði og gangi þér vel við að ströggla við Símann.. Ég get huggað þig með því að Vódafokk eru ekki betri, ég var búinn að slást við þá í marga mánuði út af bilaðri tengingu, þangað til ég hætti viðskiptum við þá..

    Bestu kveðjur,

    Silli… sem vill fá laun fyrir vinnuna sína 🙂

  6. Ekki neinni ég að fara í bíó í dag. Lagði það af fyrir tveim árum síðan og sé ekki eftir því. Fólk dreifir efni með ýmsum hætti, elsta aðferðin er að afrita á milli harðra diska, eitthvað sem þarfnast ekki net-sambands eða þannig hluta.

    Hitt er einnig staðreynd að torrent sambönd sem og önnur p2p sambönd eru í dag orðin dulkóðuð og ómögulegt að segja til um hvort að viðkomandi er að deila Gentoo Linux iso skrá eða dvd kvikmynd eða sjónvarpsþáttum.

    Það mæta alltaf einhverjir í kvikmyndahús, en það dregur sífellt úr aðsókn, enda kostar miðinn víst yfir 900 kr í dag (venjulegt sæti). Og þeir moka auglýsingum einnig undan og í miðja kvikmyndina. Alveg óþolandi.

Lokað er fyrir athugasemdir.