Frelsið til þess að vera bundinn

Ég er alltaf jafn hissa á málflutningi[2] andstæðinga ESB. Sérstaklega í ljósi þess að andstæðingar ESB hafa yfir leitt ekkert til málanna að leggja nema rangfærslur og annan hræðsluáróður sem á uppruna sinn þjóðerniskennd sem hefur alltaf verið skaðleg. Þessa þjóðerniskennd þekkja allir og ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara nánar útí hana. Þess í stað ætla ég að skrifa um eitt atriði í málflutningi ESB andstæðinga sem fer afskaplega í taugarnar á mér. Andstæðingar ESB tala nefnilega alltaf um frelsið sem Íslendingar njóta vegna þess eru utan ESB. Því miður er þessi frelsishugsun andstæðinga ESB ekkert nema tal útí loftið til þess að rugla fólk í ríminu og draga athyglina frá góðri umræðu um ESB. Ég ætla að fjalla seinna um efnahag ESB og þær staðreyndir sem þar er að finna, það er bara svo stórt viðfangsefni að ég þarf að gefa mér tíma í að rannsaka það málefni í þaula.

Andstæðingar ESB tala oft og mikið um frelsið, sérstaklega frelsi Íslands vegna þess að við stöndum utan við ESB þessa dagana. Þó erum við í EES sem er ekkert nema framlenging á ESB, við fáum þar aðgang að mörkuðum ESB en ekki nein völd innan ESB og getum ekki lagt neitt til málana eða ákvarðanatöku innan ESB. Í efnahagsmálum eru íslendingar bundnir við bölvun krónunnar, sem hoppar núna upp og niður á gjaldeyrismörkuðum. Krónan er ennfremur eingöngu hægt að nota hérna á landi, erlendis er krónan verðlaus með öllu og það eru bara braskarar, innlendir sem erlendir sem njóta þess að spila með krónuna og græða á því.

Bölvun krónunnar kemur fram einnig á annan hátt. Íslendingar eiga þessa dagana erfitt uppdráttar, efnahagskreppan sem gengur yfir heiminn þessa dagana hefur séð til þess. Ofan á þetta hefur síðan vonlaus gjaldmiðill sem spilar sína rullu í að eyðileggja kaupmátt venjulegs fólks á Íslandi. Þegar við stöndum fyrir utan ESB þá þýðir það einnig að útflytjendur fá ekki sjálfkrafa aðgang að mörkuðum Evrópu, sérstaklega þó landa ESB. Þetta veldur því að útflytjendur lenda í tollahöftum á vörum sínum, sem er mjög slæmt fyrir þá og íslensku þjóðina.

Andstæðingar ESB virðast halda að það sé frelsi að vera bundin í þjóðernishyggju og hugmyndum sem tilheyra fyrri hluta 20 aldarinnar, en ekki þeirri samvinnu sem hefur einkennt Evrópu frá því að ESB varð að raunveruleika. Það er ekkert frelsi fólgið í því vera bundin við ónýta hugmyndafræði eins og þá sem andastæðingar ESB halda á lofti í dag. Mesta frelsið felst í því að taka þátt í samfélagi þjóðanna, sérstaklega þá því samfélagi þjóða sem er að finna í Evrópu og ESB.