Að kunna ekki nafnið á Evrópusambandinu

Það eru margir á móti ESB, aðalega vegna fáránlegra einangrunarhyggju og ástæðna sem eru hreint og beint bull á tímabilum.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður Borgarahreyfingarinnar var að skrá sig í þann hóp núna í dag. Hún er búinn að lýsa því yfir að hún styðji ekki aðildarviðræður við ESB. Ég reikna með að hún sé of hrædd til þess komast að því hvað fæst í aðildarviðræðum við ESB. Reyndar er Birgitta líka á móti NATO og fleiri alþjóðastofnunum, þannig að þetta þröngsýna viðhorf hennar kemur mér ekkert á óvart.

Hinsvegar sýnir, og sannar Birgitta fyrir mér hina gjörsamlegu vanþekkingu sem hún hefur á Evrópusambandinu. Það er svo merkilegt, að þó svo að hún hafi fjallað um Evrópusambandið í utanríkismálanefnd síðustu vikur, þá virðist hún ekkert hafa lært. Það sem verra er, Birgitta er ekki ennþá búinn að læra rétt nafn Evrópusambandsins.

Þessa hérna frétt er að finna á Pressan.is.

„Ég vil alls ekki ganga í Evrópubandalagið,“ segir Birgitta Jónsdóttir.

[…]

„Það sem mér finnst mikilvægast er tímasetningin. Væri ekki nær að nýta þá orku, tíma og peninga í að endurreisa bankakerfið,“ sagði hún og bætti við að henni væri orðið fullljóst að hún vildi alls ekki fara í Evrópubandalagið.

Evrópubandalagið er á ensku nefnt European Community, og er það ein stoða Evrópusambandsins. Það sem Íslendingar vilja sækja um aðild að heitir hinsvegar Evrópusambandið, eða European Union á ensku, ekki Evrópubandalagið.

Það er algert lámark að þingmenn kunni nöfnin á því sem þeir eru að fjalla um. Þannig er minni hætta á því að viðkomandi alþingismenn verði sér til skammar á Alþingi Íslendinga.

Ég ætla líka að benda á þessa staðreynd. Það er líka hægt að sækja um aðild að ESB og endurreisa Íslenska bankakerfið á sama tíma. Íslendingar geta framkvæmt fleiri en einn hlut í einu. Afsökun Birgittu er því fáránleg, ef ekki heimskuleg þegar þessi fullyrðing hennar er skoðuð nánar.