Herinn sem er ekki til

Andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi hafa undanfarið haldið því fram að ef íslendingar gangi í Evrópusambandið þá muni verða tekin upp herskylda á Íslandi. Sú fullyrðing um að það verði tekin upp herskylda á Íslandi við að ganga í Evrópusambandið er auðvitað röng, og stenst hvorki rök eða nánari skoðun. Ég mun fara lauslega yfir það hérna af hverju þessi fullyrðing hvorki stenst nánari skoðun, eða rök hjá andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi.

Sameiginleg varnarmál innan Evrópu má skipta í tvo hluta. Þann fyrsta hluta er sá sem snýr að Evrópusambandinu sjálfu, og þann seinni sem snýr að NATO sem Ísland er aðili að. Íslendingar hafa ekki tekið mikinn þátt í fyrri hluta varnarmála Evrópu á grundvelli Evrópusambandsins, en voru þó með auka aðild að WEU (Vestur-Evrópusambandinu) sem var varnarbandalag Vestur-Evrópuríkjanna þangað til að það var lagt niður í Mars 2010. Ástæða þessa að WEU var lagt niður er sú að Lisbon sáttmálin tók yfir sameiginlega varnarstefnu Evrópusambandsins. Umrædd varnarstefna sem um ræðir í Lisbon sáttmálanum stofnar hvorki her Evrópusambandsins, eða gefur lagaheimildir fyrir slíkum sameiginlegum her. Það eina sem þar kemur fram er að aðildarríki Evrópusambandsins eiga að bæta heri sína, á sameiginlegum grundvelli ef þeim þóknast svo. Þau aðildarríki Evrópusambandsins sem vilja ekki taka þátt í þeirri uppbyggingu er frjálst að sleppa því með neitun.Enda er það sérstaklega tiltekið í Lisbon sáttmálum að þátttaka ríkja Evrópusambandsins sé valfrjáls þegar það kemur að hernaðarlegum málefnum.

Hernaðarleg málefni innan Evrópusambandsins eru umdeild, og hafa alltaf verið það. Enda háttar því þannig til að mörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa lýst sig hlutlaus, og taka alls ekki þátt í hernaðarlegum ákvörðunum annarra aðildarríkja Evrópusambandsins. Þar sem hvert og eitt aðildarríki Evrópusambandsins hefur vald til þess að stöðva alla nýja sáttmála Evrópusambandsins er tekið tillit til þeirra ríkja. Bæði til þess að það sé í samræmi við kröfur og hugmyndir umræddra aðildarríkja Evrópusambandsins, og einnig tryggja það að nýir sáttmálar Evrópusambandsins fái brautargengi hjá hinum tuttuguogsjö aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hefur haft núna um nokkurra áratugaskeið viðbragðsveitir byggðar úr herjum aðildarríkja sinna, það er þeirra ríkja sem vilja taka þátt í því samstarfi. Það samstarf hinsvegar byggir eingöngu á friðargæslu og öryggisgæslu á þeim svæðum sem Sameinuðu Þjóðirnar koma að, þessi sveit hefur einnig verið starfandi á Haíti síðan jarðskjálftinn átti sér stað þar fyrr á þessu ári.

Af þessum skoðana ágreiningi innan Evrópusambandi þá er augljóst að enginn Evrópuher mun verða stofnaður á næstu árum, jafnvel ekki áratugum. Þar sem ríkin sem um ræðir eru ekki líkleg til þess að skipta um skoðun á næstu árum og áratugum.

Seinni hlutinn í þessari hernaðarumræðu er sú staðreynd Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu NATO, og hefur nú um nokkurra ára skeið verið með herþjálfaða menn á sínum snærum í friðargæslusveitum víðsvegar um heiminn. Friðargæslu er ekki hægt að hafa nema að vera með her, jafnvel þó svo að hann sé mjög lítill eins og á Íslandi. Af aðild Íslands að NATO hefur ekki orðið nein herskylda, og hefur íslendingum verið frjálst að vera herlaust land um margra ára skeið þrátt fyrir aðild Íslands að NATO um margra áratuga skeið núna.

Það er ennfremur nauðsynlegt að benda á þá staðreynd að fyrir aðild Íslands að EES samningum árið 1994 var einnig talað í fullri alvöru um herskyldumöguleika á Íslandi. Sagan segir okkur að þessar fullyrðingar andstæðinga EES samningsins á sínum tíma voru ekkert nema innihaldslaust orðagjálfur sem hvorki áttu við rök eða staðreyndir að styðjast. Það sama gildir um Evrópusambands umræðuna í dag og Evrópuherinn sem er ekki til.

(Þessi grein líkega birtist í Morgunblaðinu fyrir einhverju síðan.)