Er Belgía að hverfa af landakortinu ?

Rúv segir frá því að hugsanlegt sé að Belgía sé að fara að hverfa af landakortinu. En í Belgíu hefur verið stjórnarkreppa undanfarna sex mánuði, eða frá því að kosningar voru haldnar þar í landi síðasta vor. Ef að landið leysist upp þá er hugsanlegt að franski hluti Belgíu gangi inní Frakkland, en slíkar hugmyndir hafa komið fram á undanförnum mánuðum. Ég hinsvegar veit ekki hvað mundi gerast með flæmska hluta Belgíu, kannski verður það hluti af Hollandi eða sjálfstætt land. En á þessari stundu er ómögulegt að segja til um það.

Hérna er frétt Rúv um stöðu mála í Belgíu.

Engin Belgía innan skamms?

Belgía er í andarslitrunum, 177 árum eftir stofnun ríkisins. Þetta er að minnsta kosti álit margra landsmanna, en 156 dagar eru frá þingkosningum og enn hefur engin stjórn verið mynduð. Höfuðástæðan er sú að sigurvegararnir, Kristilegir demókratar í Flandern, eða Flæmingjalandi, vilja efla heimastjórn þess meir en Vallónar, frönskumælandi íbúar Suður-Belgíu, fallast á.

Flæmingjar, sem tala tungu náskylda hollensku, eru 60 prósent Belga, Vallónar 40 prósent. Samkvæmt nýrri könnun telja 63 prósent Flæmingja endalok Belgíu í augsýn.

Saga landsins er skrautleg. Rómverjar stofnuðu skattríkið Gallia Belgica á fyrstu öld, lengi laut svæði yfirráðum spænskra og austurrískra Habsborgara, frönsku byltingarmennirnir sameinuðu Vallóníu Frakklandi 1795, en síðan var hún sameinuð Hollandi eftir ósigur Napóleons við Waterloo 1815. Belgía, sameinað ríki Flæmingja og Vallóna, var svo stofnuð 1830.

Belgar eiga 5 hluti sameiginlega; kónginn, knattspyrnulandsliðið, herinn, utanríkisþjónustuna og dómskerfið. Allt annað er ýmist flæmskt eða vallónskt.

Ekki er vitað hvort Flæmingjar myndu sameina fósturjörð sína Hollandi, liði Belgía undir lok, eða stofna sjálfstætt ríki, Flandern. Meiri líkur eru hins vegar á því að Vallónía yrði sameinuðu Frakklandi. 54 prósent Frakka bjóða Vallóna velkomna í Frakkland, ef marka má könnun sem birt var í Le Journal du Dimanche í fyrradag.

Rúv.is