Jarðskjálftar norður af Eyjafjallajökli, breytingar á gosóra fylgja í kjölfarið

Um miðnættið núna í kvöld hófst jarðskjálftahrina norður af Eyjafjallajökli. Þessi jarðskjálftahrina er svo norðarlega að jarðskjálftarnir eiga sér eiginlega stað í eldstöðinni Tindafjallajökli frekar en Eyjafjallajökli samkvæmt sjálfvirku kerfi Veðurstofu Íslands. Hinsvegar virðast þessir jarðskjálftar eiga upptökin í eldgosinu í Eyjafjallajökli. Hvað þarna er í gangi þarna er óvíst þessa stundina, en líklega er kvikuinnskot þarna á ferðinni eða þá að kvika sé farinn að leita sér leið uppá yfirborðið á nýjum stað. Hvað mun gerast þarna í kjölfarið er óvíst. Hinsvegar eru farnar að koma fram breytingar á gosóróanum í kjölfarið á þessum jarðskjálftum eftir því sem bestur verður séð á mælum Veðurstofu Íslands.

Þetta gætu einnig verið jarðskjálftar vegna spennubreytinga á svæðinu vegna eldgossins. Hinsvegar þykir mér það ólíklegri atburður, það er hinsvegar ekki hægt að útiloka það á þessari stundu. Tíminn verður bara að leiða það í ljós hvað er að gerast þessa stundina norður af Eyjafjallajökli.

Ég get ekki svarað því hvað gerist ef að kvikuinnskot frá Eyjafjallajökli kemst yfir í eldstöðina Tindafjallajökull.

Texti uppfærður klukkan 01:30 UTC þann 15 Maí 2010.