Mun íslenska krónan neyða mig aftur til Íslands ?

Eins og ég sagði frá fyrir rúmum mánuði síðan þá flutti ég til Danmerkur í upphafi Febrúar. Ég hef ekkert við búsetuna í Danmörku að athuga. Enda líður mér vel hérna og finnst verðlag gott hérna í Danmörku, enda nóg til af lágvöruverslunum og búðum með góð tilboð.

Það sem er þó að angra mig er sú staðreynd að íslenska krónan, ásamt mjög lágum tekjum frá Trygginastofnun hafa verið að gera mér lífið mjög leitt hérna úti í Danmörku. Reyndar svo leitt að þegar ég er búinn að borga húsaleiguna hérna í Danmörku þá er peningurinn búinn og þá hef ég ekkert meira. Sem stendur hef ég nefnilega ekki aðrar tekjur í augnablikinu. Það sem þó mun bæta gráu ofan á svart er sú staðreynd að ég mun innan nokkura mánaða tapa persónuafslættinum á Íslandi (samkvæmt vefsíðu RSK þá er þetta víst raunin). Enda á fólk sem býr erlendis ekki rétt á slíku samkvæmt lögum. Eftir því sem ég kemst næst allavegana. Slíkt mun auðvitað minnka tekjur mínar gífurlega til viðbótar þeirri minnkun sem hefur orðið hjá mér nú þegar vegna flutningsins til Danmerkur.

Fái ég ekki vinnu hérna í Danmörku mun ég neyðast til þess að flytja aftur til Íslands. Það yrði þó bara af efnahagslegum ástæðum. Ég mundi lítið nenna að taka þátt í þeirri vitleysu sem er að finna á Íslandi þessa stundina. Ég mun þó ekki stoppa að gera athugasemdir við stöðu mála ef svo ber undir. Það yrði þó eitt annað sem ég mundi gera ef ég þarf að flytja til aftur til Íslands.

Það er að auka tekjur mínar í tilraun til þess að losna úr þeirri fátækrargildru sem örorkubætur eru og flytja þá aftur erlendis á einhvern góðan stað.

Það skýrist á næstu dögum og vikum hvað ég geri. Það mun þó taka sinn tíma að flytja aftur til Íslands ef það kemur til þess.