Hvalveiðar þjóðrembunar

Íslendingar hafa ákveðið að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni eftir 20 ára hlé. Þetta hefur auðvitað ekki farið fram hjá flestum íslendingum. Það sem hefur hinsvegar farið fram hjá flestum íslendingum er sú staðreynd að það er engin þörf á þessum hvalveiðum, enda ekki hægt að selja kjötið, enda varla hægt að segja hvalkjötið sem kom útúr vísindaveiðum á innanlandsmarkaði og japanir hafa sagt að þeir hafi engan áhuga á að kaupa hvalkjötið af íslendingum, enda eigi þeir nóg (sem þeir veiða sjálfir í vísindaveiðum) og þurfi ekki meira.

Það er kaldhæðnislegt til þess að vita að þessar hvalveiðar þjóna ekki neinum tilgangi nema að ýta undir pólitíska hagsmuni Sjávarútvegsráðherra, einnig sem þetta er tilraun hjá Sjálfstæðisflokknum að vinna fylgi með því að ýta undir þjóðrembu íslendinga í tengslum við hvalveiðar. Vegna þess að þeim hefur ekki gengið alltof vel undanfarið, með hlerunarmál á bakinu og fleiri vandræðamál sem þeir vilja losna við.

Mitt álit á þessum hvalveiðum er mjög einfalt. Þær eru til skammar, bæði hvernig þær eru framkvæmdar og hvernig var staðið að þeim. Íslendingar geta ekki í dag hagað sér eins þeir séu einir í heiminum, vegna þess að þeir eru það svo sannarlega ekki. Íslendingar eiga að hefja hvalveiðar þegar heimurinn samþykkir að það sé í lagi, ekki fyrr.

Æra Árna Johnsen

Handhafar Forsetavalds (handhafar forsetavalds eru Forsætisráðherra og forseti alþingis) hafa ákveðið að skrifa undir plagg þar sem Árni Johnsen fær uppreist æru. En það þýðir samkvæmt lögum að hann er með óflekkað mannorð aftur og er því orðin kjörgengur fyrir næstu alþingiskosningar, sem eru einmitt á næsta ári. Handhafar forsetavalds tóku þessa ákvörðun og skrifuðu undir forsetabréf þess efnis að Árni Johnsen fær uppreisn æru. Eins og kemur fram í frétt á Rúv.is

Mér persónulega finnst þessi ákvörðun handhafa forsetavalds vera algerlega óverjandi og siðlaus með öllu. Enda braut Árni Johnsen af sér í opinberu embætti og braut á því trausti sem fólk hafði til hans. Enda var hann að stela af almannafé (fjárdráttur) og notaði í sína eigin þágu. En eitt er alveg ljóst að Árni Johnsen hefur ekkert inná Alþingi að gera, eða vera í öðrum opinberum störfum. En félagar hans í Sjálfstæðisflokknum komu honum í gott starf hjá Rarik hf fljótlega eftir að hann losnaði úr fangelsi.

Skömm að þessu fólki.

Draumar Dómsmálaráðherra

Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra dreymir um margt skrítið. Einn af þessum skrítu draumum hans snýst um að stofna leyniþjónustu hérna á landi. Þetta ferli er komið hálfa leiðina, en fyrir nokkrum árum síðan þá var samþykkt breyting á fjarskiptalögum hérna á landi sem skildar öll fjarskiptafyrirtæki að njósna um borgara þessa lands, svona til vara ef þeir skildu brjóta af sér. Þessar hleranir eru auðvitað ekki framkvæmdar með dómsúrskurði og verður sú lagasetning að teljast vafasöm með meiru.

Þessi lagasetning varðandi hleranir á fjarskiptum landsmanna er bara hluti af þeirri áætlan Dómsmálaráðherra að koma hérna upp Leyniþjónustu, en inní þessari áætlun hans þá er einnig á dagskrá að stofna Íslenskan her uppúr sérsveit lögreglunar. Hérna á landi er auðvitað engin þörf á leyniþjónustu eða her, enda eru nágrannar Íslands að mestu friðsamar þjóðir. Einnig sem að Ísland er í NATO, sem bregst við hættuástandi hérna á landi samkvæmt stofnsáttamála NATO.

Dómsmálaráðherra er þessa dagana að afsaka þörfina fyrir stofnun leyniþjónustu hérna á landi. Fyrst var hryðjuverkagrýlan notuð, þegar það dugði ekki þá var brugðið á það ráð að nota fíkniefnavandan sem afsökun fyrir stofnun leyniþjónustu með því að segja að leyniþjónustan verði eingöngu notuð til þess að njósna um dópsala og þá sem flytja inn ólögleg fíkniefni. En lögreglan hefur hingað til staðið sig alveg ágætlega í að koma upp um fíkniefnimál hérna á landi hingað til og hefur ekki þurft neina leyniþjónustu hingað til.

Staðreyndinar eru mjög einfaldar, hérna á landi hefur aldrei verið þörf fyrir leyniþjónustu. Einnig sem að stofun slíkar stofunar er hættuleg, þar sem óheiðarlegir stjórnmálamenn virðast komast upp með nánast hvað sem er hérna á landi.

Um Kárahnjúkavirkjun

Mikið er skrifað um Kárahnjúkavirkjun og þau vandamál sem eru í kringum þá stíflu, sérstaklega mjög sprungið berg sem stíflan stendur á. En það eru til hlutir um þessa stíflu sem hafa ekkert farið hátt í fjölmiðlum þessa dagana. Það er staðreynd að Kárahnjúkastífla stendur á bergi sem er frá 0,8 – 3,3 milljón ára gamalt (0,8 = 800,000 ára) og hluti lónsins mun liggja á bergi sem er yngra en 800,000 ára gamalt. Þetta má sjá með því að skoða legu legu lónsins á höggunarkorti frá Landmælingum Íslands, þar sem aldur bergsins er skráður. Svona ungt berg er mjög óþétt og oftar en ekki mjög sprungið, en og hefur komið á daginn eftir að hafist var við að reisa stífluna, en gagnagerðin þarna hefur verið í miklum töfum og vandræðum vegna þess að boranir hafa verið að fara í gegnum sprungur og mjög óþétt berg, eins og reikna má með á svona ungi landi.

Fleira atriði er rætt um í kringum þessa stíflu, en Landsvirkjun og málsvarar Kárahnjúkavirkjunar hafa verið að draga úr þeirri hættu sem fylgir því að virkja á svona ungu bergi, en samkvæmt fyrrverandi Iðnaðarráðherra (Valgerði) þá er reiknað með 1 sm sigi þarna á ári og í heildina þá mun þarna verða landsig uppá heila 30 sm þar sem lónið verður staðsett. En það þýðir að þarna munu verða stórfelldar breytingar á ári, sérstaklega þar sem lónið er mjög stórt og nær yfir mjög stórt landsvæði. Vegna þess þá mun þetta lón valda spennubreytingum á stóru svæði í kringum sig. En á þessu svæði eru sex virkar eldstöðvar í næsta nágrenni og svipaður fjöldi sem er í talsverði fjarlægð frá lóninu sjálfu, sem einnig munu verða fyrir áhrifum þessara spennubreytinga. En þær eldstöðvar sem eru næst lóninu eru Snæfell (Engin eldgos á nútíma, en telst samt vera virk eldstöð), Kverkfjöll (virk á nútíma), Askja (virk á nútíma), Grímsfjall (virk á nútíma) og síðan Bárðarbunga (virk á nútíma). Fleiri eldfjöll eru þarna, sem munu verða fyrir áhrifum af spennubreytingum vegna þessa lóns, en erfitt er að áætla áhrifin frá lóninu. En eldvirkni og jarðskjálfta virkni gæti aukist þar, eins og mun líklega gerast í næsta nágrenni við lónið. Það sem einnig hefur farið lítið fyrir í umræðunni er sú staðreynd að lónið mun að hluta til fara inná sprungusveim sem kemur frá Kverkfjöllum, en ef að það færi að gjósa í Kverkfjöllum, þá er hætta á því að kvikuinnskot nái til stíflunar eða einhverra af þeim jarðgögnum sem hafa verið grafin þarna. Annaðhvort skaði stífluna, eða stífli einhver af þessum jarðgöngum sem eru þarna. Einnig sem það er ómögulegt að segja hvað gerist með eldstöðina Snæfell.

Að mínu mati þá hefur þessi virkjun alltaf verið fleygðarflan og álit mitt hefur ekki breyst við þær upplýsingar sem hafa verið að koma fram undanfarið um þessa virkjun. Ég vona bara að kostnaðurinn vegna hroka og græðgi stjórnvalda verði ekki alltof mikill fyrir fólk þessa lands þegar vandamál vegna þessara virkjunar fara að koma fram.

Áhrif stíflunar á eldgosavirkni og jarðskjálfta eru eingöngu mitt mat, miðað við það sem ég veit um í jarðfræði. En ég byggi mitt mat á því sem ég hef einnig heyrt um í fréttum og lesið í greinum á netinu. Þetta mat er ekki vísindaleg staðreynd og ber því að taka því sem þannig. Ég er áhugamaður um jarðfræði, eldgos og jarðskjálfta.

Nafnleysi eiganda bloggsins orðsins á götunni

Bloggið á götunni þykist vera nafnlaust blogg sem fjallar um málefni og stjórnmál líðandi stundar. Um umfjöllun þeirra orðsins á götunni manna hef ég ekkert útá að setja, enda er hún bæði fræðandi og upplýsandi oft á tíðum. En það fer minna fyrir nafnleysinu hjá þeim en gott þykir. En tölvupóstfangið sem orðið á götunni menn nota til þess að taka við fréttum er skráð hjá Og Vodafone og er tengt við þann aðila sem borgar af því. Sem er líklega ástæðan fyrir því að af hverju einn af þeim sem skrifar á orðið á götunni fannst fljótlega eftir að vefurinn fór í loftið.

Ég er með ráð fyrir þá orðið á götunni, þeir ættu að fá sér nafnlausan tölvupóst og hefðu átt að gera það frá upphafi. Ég mæli með gmail. Ef þeim vantar boð til þess að fá það, þá geta þeir bara sent mér tölvupóst. (Fjarlægja _spamvörn úr tölvupóstfanginu)

SUS og álagningaskránar

SUS (Samband Ungra Sjálfstæðismanna) heldur í dag uppá sitt árlega „við mótmælum því að fólk komist að því hvað sumir eru ógeðslega ríkir dag, vegna þess að þeir eru góðir Sjálfstæðismenn“. Það er einnig mjög kaldhæðnislegt hjá SUS að þykjast standa fyrir verndun einkalífsins á meðan Dómsmálaráðherra vill bæði stofna her og leyniþjónustu hérna á landi, einnig sem að téður Dómsmálaráðherra vill auka eftirlit með almenningi hérna á landi. En síðast var sett í lög eftirlit með internetinu á Íslandi og heimildir lögreglu til þess að hlera fólk hafa verið rýmkaðar umtalsvert á undanförnum árum. Hræsni SUS í þessum mótmælaaðgerðum er augljóst og mun aðeins verða þeim til minnkunar, eins og flestur þeirra málflutningur hingað til hefur verið.

Bensínhækkanir

Afhverju er bensínhækkanir hérna á landi þannig að þær gang yfirleitt aldrei til baka þegar olíuverð lækkar. Besta dæmið um þetta kom núna í fyrradag, olíufélögin hækkuðu öll um sama verð, bensín um 3,40 kr og díselolíu um 2 kr. Ástæðan sem var gefin upp var hækkandi heimsmarkaðsverð og síðan slæmt gengi krónunar gegn Bandaríkjadollar (~75 kr þessa stundina). Þegar olíufélögin hækkuðu verðið, en Atlantsolía, ÓB, Orkan hækkuðu verðið í dag, þá hefur olíverðið fallið niður í 75 dollara tunnuna. En það verð er mjög svipað því sem var áður en Ísrael réðst á Líbanon. En þrátt fyrir það þá virðist sem að verð á bensínu og olíu sé ekki að fara að lækka á næstunni.

Þess má einnig geta að Esso, Olís og Shell hækkuðu öll bensín og olíuverð um nákvæmlega sömu krónutölu. Minnir um margt á gamla samráðstíma þessara olíufélaga.

Mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar vaktaðir

Það er alveg ótrúlegt hvað það er troðið á rétt fólks hérna á landi til þess að mótmæla, hvort sem það eru Íslendingar eða útlendingar. En þessi hegðun löggunar er brot á tjáningarfrelsi þessa fólks.

Kárahnjúkum mótmælt

Lögreglan á Seyðisfirði mun hafa sérstaka gát á farþegum , sem koma með Norrænu fyrir hádegi, þar sem búist er við fólki, sem hyggst efna til mótmæla gegn Kárahnjúkavirkjun, líkt og gerðist í fyrrasumar. Tveir þeirra,sem lögregla hafði afskipti af í fyrra vegna mótmæla, komu með síðustu ferð skipsins til landsins, en ekki er vitað til að mótmælendur hafi enn slegið upp tjaldbúðum á hálendinu.

Vísir.is

Pólitískar ofsóknir gegn mótmælendum Kárahnjúkavirkunar ?

Það er áhugavert að skoða viðbrögð lögregluyfirvalda gagnvart útlendingum sem eru hingað komnir til þess að mótmæla Kárahnjúkavirkjun.

Kárahnjúkar: Mótmælendur tínast til landsins

Svo virðist sem útlendir mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar séu byrjaðir að tínast til landsins. Lögregla kannaðist við þrjár konur sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun. Tvær tóku þátt í mótmælunum í fyrrasumar. Helgi Jensson, staðgengill sýslumannsins á Seyðisfirði, segir að rætt hafi verið við konurnar og pappírar þeirra skoðaðir.

Helgi segir að við nánari athugun hafi ekki þótt ástæða til að meina þeim landgöngu. Þær hafi verið með alla pappíra í lagi. Helgi segir að verið geti að einhverri þeirra sem vísað var úr landi í fyrra séu í endurkomubanni. Það sé Útlendingastofnunar að skera úr um hvort þeim verði vísað á brott eða ekki.

Rúv.is

Hegðun Íslenskra yfirvalda gagnvart útlendingum sem eru hingað komnir til þess að mótmæla er til skammar, enda er verið að vanvirða tjáningarfrelsið hérna á landi. Eitthvað sem greinilega ekki vefst fyrir stjórnvöldum þessa lands.

Gervifriðurinn í Framsóknarflokknum

Það hefur verið æði skondið að fylgjast með Framsóknarflokknum síðustu daga, sérstaklega eftir að Halldór Ásgrímsson ákvað að segja af sér Forsætisráðherraembættinu. En þá hófst nefnilega barátta á milli valdaklíka innan flokksins sem endaði á mjög svo dularfullan hátt. En allt í einu, einn daginn, þá var allt orðið rólegt hjá Framsóknarflokknum og allir orðnir góðir vinir. Það er greinilegt að aðilar innan Framsóknarflokksins hafa komist að þeirri niðurstöðu að átökin, sem voru orðin vandræðaleg fyrir flokkin, að það væri einfaldlega best að grafa þessar deilur, allavega opinberlega séð.

Ég met það þannig að í Framsóknarflokknum sé nákvæmlega enginn friður, heldur að þarna sé ennþá allt logandi í ófriði og deilum, með öllu sem fylgir þannig átökum. Ég er einnig alveg vissum að innan skamms munu þessi átök koma aftur uppá yfirborðið, enda getur enginn falið svona vandamál til lengdar. Og þá sérstaklega ekki í heilum stjórnmálaflokki, þó lítill sé.

[Uppfært þann 14.06.2006 klukkan 07:45]