Tóm þvæla að standa í einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðli

Það er tóm þvæla að tala um einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðli. Ástæðuna er að finna í þeirri staðreynd að þá mundi Seðlabanki Íslands þurfa að kaupa upp allar þær krónur sem eru í notkun núna og láta í staðinn umrædda mynt sem skipt væri í.

Slíkt er mjög kostnaðarsamt og í efnahagskerfi eins og hinu Íslenska þá mundi það aldrei ganga upp. Enda gæti Seðlabankinn ekki prentað umræddan gjaldeyri ef þess mundi þurfa.

Eina rökrétta stefnan í þessum málum er að sækja um aðild að ESB sem fyrst. Og þegar Ísland væri komið inní ESB, þá að láta Seðlabanka Evrópu (ECB) festa gengi krónunnar í gegnum ERM II samstarfið (með 15% vikurmörkum) þangað til að hægt væri að taka upp evruna hérna á landi. Að taka upp evruna tekur að lámarki 2 ár að kröfu ESB.

LÍÚ þarf að átta sig á þeirri staðreynd að andstaða þeirra við aðild að ESB er ekki byggð á neinu nema vanþekkingu á ESB og hvernig það starfar. Sama gildir um andstöðu Bændasamtaka Íslands.

Eins og staðan er orðin í dag, þá er það þjóðarhagur að Ísland gangi í ESB.

Tengist frétt: LÍÚ vill einhliða upptöku

ESB hefði líka getað hjálpað Íslendingum

Ef að Íslendingar hefðu verið í ESB, þá hefðum við fengið nákvæmlega sömu hjálp og Lettar eru núna að fá frá ESB. Þá hefðu verið minni líkur því að Íslendingar hefðu þurft að sækja um hjálp hjá IMF. Þess í stað sitja Íslendingar núna í súpunni og geta litla björg sér veitt, nema þá helst að taka stærri lán erlendis.

Skammsýni Íslendinga, ásamt græðgi hefur kostað okkur mikið og mun kosta okkur meira ef ekki verður sótt um aðild að ESB fljótlega eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Sem vonandi sýnir þá skynsemi að skipta um skoðun varðandi ESB.

Tengist frétt: ESB veitir Lettlandi aðstoð

Engin alvöru umræða farið fram um aðild að ESB

Það hefur ekki farið nein umræða um ESB aðild hérna á landi svo neinu nemi. Heldur hefur blekkingum og lygum verið dreift í umræðuna af andstæðingum ESB með dyggri aðstoð Morgunblaðsins sem setur andstæðinga ESB á forsíðu sína í gríð og erg. Aftur á móti heyrist minna í þeim sem styðja ESB, enda hefur umræða um kosti ESB verið þögguð niður í mörg á hérna á landi af andstæðingum ESB í Sjálfstæðisflokknum. Sem hafa ekki viljað sjá aðild að ESB undanfarna áratugi.

Þrátt fyrir þetta er ennþá meirihluti fyrir aðild að ESB á Íslandi. Samkvæmt þeim tölum sem ég hef verið að skoða. Þá hefur aðild að ESB oft verið samþykkt með naumum meirihluta í þeim löndum sem hafa sótt um ESB, eða frá 52% og uppí 57% sem samþykktu aðild að ESB.

Tengist frétt: Minnkandi áhugi á ESB-aðild

Ísland sækir um aðild að ESB á næsta ári

Samkvæmt frétt Financial Times þá er núverandi Íslenska ríkisstjórnin að undirbúa að sækja um aðild að ESB . Einnig samkvæmt þessari frétt þá mun umsókn Íslands til þess að ganga inní ESB gerast á næsta ári.

Bank crisis prompts Iceland EU rethink

This is the first time Iceland has formally proposed EU membership. Officials at the ministry of foreign affairs are understood already to have drawn up a preliminary plan that envisages an application early next year and eventual entry in 2011.

Evran og kreppan

Andstæðingar ESB hafa haft uppi mörg orð um Evruna. Þeir hafa verið yfirlýsingaglaðir um evruna, gjarnan slegið því fram að evran muni ekki endast og muni fljótlega hrynja og hætt verði við notkun hennar. Þetta hafa andstæðingar ESB verið að segja frá árinu 1999 eða svo. Andstæðingar ESB og evrunar hafa einnig haldið því fram að evran muni verða verðlaus einn daginn og muni hrynja. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum.

Staðreyndin er að evran og allt evrusvæðið er að koma ágætlega útúr þeim efnahagshremmingum sem ganga núna yfir evrópu. Gengi evrunar hefur eitthvað fallið gangvart dollar og öðrum myntum, en slíkt þarf ekki að koma á óvart. Gengi gjaldmiðla sveiflast alltaf. Það sem skiptir máli er stöðugleiki þess efnahags sem gjaldmiðilinn hvílir á. Efnahagur þeirra ríkja sem taka þátt í evrusamstarfinu er mjög stöðugur, enda eru skilyrðin sem þarf til þess að taka upp evru vísun á efnahagskerfi sem er rekið mjög vel og á skilvirkan hátt. Enda er sú efnahagstefna sem er rekin á evrusvæðinu mjög skynsamleg. Það hefur sýnt sig í þeirri kreppu sem núna gengur yfir heiminn og evru.

Sá samdráttur sem evrusvæðið er núna að fara í, er fyrsti samdrátturinn á evrusvæðinu síðan það varð til. Evrusvæðið hefur verið til í rúm 9 ár núna og aldrei lent í svona samdrætti áður. Þannig þessu munu fylgja margir óþekktir hlutir. Þó mun þó ekki gerast að evran muni hrynja eins og andstæðingar ESB hafa spáð villt og galið síðustu ár.

Verðbólga og vextir hafa verið að lækka á evrusvæðinu síðustu mánuði. Til samanburðar þá hefur verðbólga og vextir verið að hækka hérna á landi, mjög hratt á milli mánaða og þetta veldur því að kaupmáttur skerðist hérna á landi. Einnig sem að verðtryggingin er hrikalegt vandamál hérna á landi og ekki fólki bjóðandi. Með inngöngu Íslands í ESB þá mun fólk hérna á landi losna við verðtrygginguna og vextir munu fara lækkandi hægt og rólega í kjölfarið, það mun einnig gerast með verðbólguna.

Bretar eru í ESB en standa fyrir utan evruna, eins og Danmörk og Svíþjóð. Núna óttast Bretar að Breska pundið muni hrynja ef það verður gert áhlaup á það. Danir eru búnir að átta sig á því að það er mjög kostnaðarsamt að standa fyrir utan evrusvæðið, enda stefna þeir á kosningar um upptöku á evrunni fljótlega. Þannig að það er mjög líklegt að Danska krónan muni hætta að verða til fljótlega. Ég veit ekki hvort að Bretar muni breyta afstöðu sinni til evrunnar og upptöku hennar. Sem stendur þá er staðan þannig að Bretland samdi sérstaklega um það þurfa ekki að taka upp evruna og standa því fyrir utan evru svæðið (15 lönd sem eru með evruna, 16 lönd með evruna eftir 1 Janúar 2009). Svíar finna einnig fyrir því að vera með sænsku krónuna, ég veit þó ekki hvort að stefnt sé að nýrri atkvæðagreiðslu um upptöku evrunar. Svíar eiga að taka upp evruna samkvæmt ESB samningum, þeir hafa þó viljandi ekki uppfyllt skilyrðin til þess þar sem upptaka evru var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. ESB umber þetta, sem stendur, en hefur sagt að þau muni ekki umbera þessa aðferð hjá öðrum löndum sem eru í ESB.

Fyrir Íslendinga þá er evran lífsnauðsynleg, enda hefur það svo rækilega sannast núna að það er ekkert hald í krónunni, enda er krónan örgjaldmiðill sem stendur á afskaplega litlum efnahag. Slíkt er aldrei góð blanda, eins og sannast hefur í dag. Áður en Ísland getur tekið upp evru þarf fyrst að ganga í ESB og fara inní ERM II samstarfið, sem mun þá festa gengi krónunar við evruna næstu tvö ár að lámarki, eða þangað til að hægt sé að taka upp evruna. Upptak evru fer nefnilega ekki fram fyrr en skilyrðin til þess eru uppfyllt. Eins og staðan er í dag, þá gæti þetta tekið allt að 2 til 5 ár fyrir Íslendinga. Jafnvel lengur, en þetta er mitt mat miðað við stöðuna í dag.

Uppblásin hræðsluáróður andstæðinga ESB er ómarktækur og ekki byggður á rökum. Heldur er hérna um að ræða eiginhagsmunarsemi sem engin skynsemi er í. Það er einnig þannig með fiski-iðnaðinn hérna á landi að hann er ekkert svo voðalega stór ef að hann er skoðaður í dag. Ég sá tölur í fjölmiðlum um daginn að allar tekjur CCP af EVE Online jafnist á við allan fisk útflutning Íslands í dag. Þannig að andstaða sjómanna á ESB er byggð á röngum upplýsingum. Allar líkur eru á því að fiskimenn, eins og aðrir á Íslandi muni græða á því það að Ísland færi í ESB. Þó eingöngu vegna betri aðgengi að mörkuðum hjá þeim ríkjum sem eru innan ESB.

Allur útflutningur til og frá Íslandi yrði tollfrjáls í kjölfarið á inngöngu Íslands í ESB. Samkeppni mundi aukast hérna á landi, réttindi neytandans munu aukast og einnig vöruúrval. Verðlag mun lækka (gerði það í Finnlandi þegar þeir fóru inní ESB og sömu sögu er að segja um fleiri lönd sem hafa gengið inní ESB á síðustu árum) og úrval aukast.

Framtíð Íslands er í ESB. Það er ekkert nema fortíðarþráð að vilja halda sig fyrir utan ESB og vera með ónýta krónu sem gjaldmiðil.

UPDATE 1-UK’s Brown hits back over pound collapse comment
Osborne fears sterling collapse
Sterling takes a pounding
Eurozone tumbles into first-ever recession
Eurozone sinks into recession for first time
Danish c.bank chief says DKK pressure abating -FT
Denmark Pushes for Vote to Adopt Euro
Rejected in 2000, Common Currency Gains Support as Crisis Hits Economy

Tengist frétt: Guðni vill skoða ESB-aðild

Skoðun andstæðinga ESB er alltaf sú sama

Ég hef verið að renna yfir svör þeirra sem setja sig upp á móti ESB. Niðurstaðan var sú sama eins og áður, „rök“ þessa fólks eru byggð á viljandi fáfræði um ESB og viljandi rangfærslum um ESB. Það eru öllu af taka þarna, ég þarf ekki að fara sérstaklega yfir það í þessari færslu.

Það er eins og þeir sem eru á móti ESB hafi ekki tekið eftir stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu, hvorki fyrir bankahrunið eða eftir það. Íslendingar eru lítil þjóð (310.000 manns, lítið þorp í Danmörku sem dæmi) og teljast til jaðarbyggðar í Evrópu, í landi sem er varla byggilegt vegna lítils sumars og langs vetrar.

Eftir bankahrunið þá versnaði staða okkar Íslendinga mikið, ennþá meira síðasta mánuðinn og líklegt er að staða Íslands eigi ennþá eftir að versna. Þrátt fyrir yfirlýsingar yfirvalda um annað (yfirlýsingar yfirvalda (Geirs Haarde) hafa reynst frekar hald litlar þegar á reynir).

Staðan er mjög einföld, Íslendingar hafi ekki lengur efni á því að stunda þessa sjálfselsku sem þeir láta ráða sér í dag. Hvorki varðandi fiskimiðin eða annað hérna á landi. Það yrði einnig mikil framför að leyfa útlendingum að eiga í fiskifyrirtækjum hérna á landi. Það myndi draga úr ógeðfelldri spillingu hérna á landi í leiðinni og auka ábyrgð og samkeppni. Þessi skoðun nær yfir fleiri atriði hérna á landi, svo sem fjölmiðla og önnur fyrirtæki (Jón Ásgeir kom í veg fyrir að erlent fjölmiðlafyrirtæki mundi kaupa Stöð 2 um daginn þegar hann keypti fyrirtækið af sjálfum sér).

Íslendingar hafa ekki efni á því að standa fyrir utan ESB, reyndar höfðum við aldrei efni á því að standa fyrir utan ESB. Í dag borgum við fyrir frekju þeirra sem héldu Íslandi fyrir utan ESB og komu þannig í veg fyrir að almenningur gæti haft það gott og lifað lífi sem hæfir alvöru þjóðum. Ekki þessu bulli sem er í gangi hérna á landi og hefur verið lengi.

Tengist frétt: Skref í átt að ESB væru jákvæð

Ríkisstjórnin reyndi að brjóta alþjóðasamninga

Ríkisstjórn Íslands reyndi að brjóta EES samningin. ESB og ráðherraráðið sló hendinni í borðinni og sagði að þetta yrði ekki liðið. Niðurstaðan á endanum varð sú að ríkisstjórn Íslands varð að bakka, enda búið að loka öllum hurðum á Íslandi, hvort sem um var að ræða IMF, ESB eða norðurlöndin. Ísland hefur verið að einangrast mjög hratt á alþjóðavettfangi og viðskipti við útlönd orðin mjög erfið (og eru ennþá) vegna gjaldeyrisskorts.

Það er mjög ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa ákveðið að breyta um stefnu í Evrópumálum, þó svo að þessi stefnubreyting sé ekki ennþá orðin opinber í flokkum. Það er hinsvegar þannig að Sjálfstæðisflokkurinn mun þurfa að bera ábyrgð á þessu hruni í næstu kosningum og í mun sæta refsingu af höndum þjóðarinnar næstu árin vegna þessa hrun. Þetta er refsing sem mun hæfa Sjálfstæðisflokknum fyrir þann hroka sem hann hefur sýnt þjóðinni undanfarin 17 ár eða svo.

Tengist frétt: Skipuð verði Evrópunefnd

Leiðrétting á efnisflokki

Ég hér með leiðrétti efnisflokkin ESB, sem ég hafði nefnt EB. Mér tókst að rugla saman Evrópubandalaginu við Evrópusambandið, en Evrópubandalagið er forveri Evrópusambandsins sem varð til árið 1992.

Þetta leiðréttist hér með.

Tefja stjórnvöld IMF aðstoðina ?

Útskýringar ríkisstjórnarinnar af hverju IMF aðstoðin kemur ekki til gengur ekki upp. Ríkisstjórnin (Geir Haarde) hefur einnig komið með margar misvísandi útgáfur af því afhverju lánið frá IMF tefst svona. Þær geta ekki allar verið réttar, en þær geta allar verið rangar.

Mig fastlega grunar að ríkisstjórn Íslands hafi bara gefið út yfirlýsingu um lán frá IMF, en hafi síðan aðhafst ekkert meira í málinu. Þetta lítur allavegana þannig út. Það er mjög hentugt fyrir ríkisstjórnina að kenna Bretum og Hollendingum um tafir á málinu, þó svo að augljóst ætti að vera að þeir geta hvorki tafið málið hjá IMF eða stoppað það þar.

Samfylkingin tekur undir þetta, því að þau vita einfaldlega ekki betur. Það er einn maður sem heldur á öllum spilunum og það er Geir Haarde. Hann getur þessvegna komið með hvaða útskýringu sem er. Sem Samfylkingin kaupir síðan, vegna þess að hún virðist ekki hafa burði eða áhuga á því að kanna málið nánar sjálf. Sem eru stór mistök í sjálfu sér og það mun koma Samfylkingunni illa í framtíðinni.

Það er alveg augljóst hver ábyrgð Íslendinga er samkvæmt EES samningum. Íslenskum stjónvöldum ber að semja um þessi útibú, með því væri kannski hægt að færa hluta ábyrgðarinnar yfir á Bresk og Hollensk stjórnvöld. Því miður virðist vera afskaplega lítill áhugi á samningaleiðinni hjá ríkisstjórn Íslands. Það hentar þeim betur að blása út þjóðernisbólu í fjölmiðlum og kenna Bretum og Hollendingum um það sem aflaga hefur farið hérna á landi. Þjóðernisbólan mun springa fljótlega og þá getur Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn afskaplega lítið gert til þess að beina reiðinni annað.

Það er ekki bara bankakerfið sem er hrunið hérna á landi. Stjórnmálakerfi og valdakerfið hérna á landi er einnig að hruni komið vegna spillingar og óheiðarleika. Ég reikna með að næstu dagar verði örlagaríkir fyrir Íslendinga í stjórnmálum og efnahagsmálum. Þetta á einnig eftir að verða mjög dýrkeyptur lærdómur fyrir Íslendinga og mjög dýrt tímabil.

Ég vona þó að endurreisnin hefjist á því að Ísland sæki um í ESB og við sem þjóð getum farið að takast á við heiminn eins og hann er. Ekki eins og við viljum hafa hann.

Tengist frétt: Ólíklegt að Bretar komi – utanríkisráðuneytið sparar